Coco Cay

Í dag vöknuðum við snemma og vorum mætt út á dekk þegar skipið lagðist fyrir akkerum við Coco Cay. Síðan fórum við í morgunmat en tókum svo bát yfir á eyjuna. Eyjan er nú ekki mjög stór, svona eins og 3-4 Gróttur en hefur upp á margt að bjóða. Við höfðum ákveðið að sigla á kajökum og snorkla og áttum kajaktíma klukkan 11. Áður fórum við á strámarkaðinn og kíktum á varninginn hjá eyjaskeggjunum. Við vorum mætt tímanlega fyrir kajakróðurinn og undirrituðum skjal sem firrir skipafélagið allri ábyrgð á hugsanlegum skakkaföllum. Síðan fundum við björgunarvesti og festum þau á okkur og biðum eftir að vera kölluð í róðurinn. Eftir smá leiðbeiningar var haldið af stað og róið í átt til hafs. Mjög fljótlega stoppaði fararstjórinn og sýndi okkur kuðung með krabba, krossfisk og benti okkur á að við gætum séð skötur sem við sáum þó ekki í róðrinum. Eftir að hafa róið í 1½ klukkutíma gengum við frá kajaknum, árum og vestum og héldum í hádegismat. Hann var borðaður á Captein Blackbirds, sem er grillstaður á eyjunni og gátum við valið um hamborgara, pylsur, kjúkling, rif og fleira góðmeti. Þegar við höfðum lokið við að matast héldum við í átt að snorklinu. Eftir að hafa fengið snorklgræjur sem samanstanda af munnstykkjum, gleraugum, froskalöppum og björgunarvestum, var okkur ekki til setunnar boðið. Við héldum niður á strönd og út á haf, syntum í átt að flugvélaflaki og þaðan að bátsflaki og nutum þess að sjá það sem fyrir augun bar. Við sáum fullt af alls kyns fögrum fiskum og þar komum við auga á skötu sem læddist eftir hafsbotninum. Við snorkluðum í u.þ.b. 1½ klukkutíma en þá var tími til komin að halda til skips. Hér erum við nú að ganga frá síðustu færslu í siglingunni en í kvöld er ætlunin að fara á sýningu í leikhúsinu, pakka niður og ganga frá töskunum, því þær verða að vera komnar fram fyrir miðnætti. Við eigum svo að fara frá borði um klukkan 9:15 en við erum með bleikan aðgang frá borði. Þess má geta að við höfum skipt um húðlit, úr hvítu (Þorvaldur úr næpuhvítu) í eldrautt 🙁

Strámarkaðurinn.jpg'Gróa við ströndina.jpg

TobbiGróa við kajakana.jpg

2 ummæli

  1. Edda

    Það þarf nú ekki að giska tvisvar á hvað Tobbiman hafi fengið sér í hádegismat.

  2. Kristján

    „…næpuhvítur strípalingur af Ströginu stangar hann inn… er það mark?“